NÝNEMAR STARTA SKÓLAÁRINU
Hefð er fyrir því að halda svokallaðan NÝNEMADAG í FSu haust hvert áður en hefðbundin kennsla hefst. Dagskráin, sem er jafnan þéttskipuð, er miðuð að því að nýir nemendur fái örlítinn smjörþef af skólaumhverfinu sem þeir eru að verða hluti að, bæði hinu rafræna en ekki síður raunheimum. Yfir 280 nýnemar hefja nám við skólann þetta haustið og mætti lungi þeirra til leiks mánudaginn 18. ágúst hvar þeir fóru um í skipulögðum hópum á milli fjölmargra ólíkra kynningarstöðva leiddir áfram af sínum umsjónarkennurum.
Fjölmargt starfsfólk skólans kemur að deginum auk nemendaráðs. Meðal annars er farið með nemendur um öll þrjú húsnæði skólans: Odda, Hamar og Iðu, kynningar eru á bókasafni, þjónustu skrifstofu og mötuneyti, náms- og félagsráðgjafar kynna sitt fag, sérstakar tölvustöðvar eru til þess að nemendur geti tengst kennslukerfinu Innu og í framhaldi Office pakkanum sem og þráðlausu neti skólans. Þá hitta nýnemar sinn umsjónarkennara sem verður þeirra bakhjarl á næstu misserum.
Á nýnemadegi flæða upplýsingarnar í miklu magni um heilastöðvar nemenda á tiltölulega skömmum tíma því í raun er allt nýtt. Nýr skóli, nýtt námsumhverfi og ákaflega mikið af nýju fólki og því gott að vera aðeins búin að fá innsýn í það sem bíður og hvert er hægt að leita eftir aðstoð og þjónustu. Kennsla hófst svo samkvæmt stundarskrá þriðjudaginn 19. ágúst og næstu dagar fara í að komast inn í hlutina og læra enn betur á kerfið. Krakkarnir voru til fyrirmyndar og öll dagskráin rann ljúflega og endaði á fjöri sem nemendafélag skólans sá um.
ár / jöz