NÓTNAHOF INNI Í AÐALBYGGINGU
Í lok nóvember síðastliðinn var afhjúpað nýtt merki fyrir Kór Fjölbrautaskóla Suðurlands en slíkt hefur kórinn ekki átt áður. Um samkeppni var að ræða sem fram fór á milli nemenda í áfanganum NÝMI2GH05 eða grafísk hönnun þar sem snert er á ýmsum þáttum eins og letri og meðferð þess, táknmáli forma og lita, heildarframsetningu veggspjalda og bæklinga og kíkt inn í heim vörumerkja. Kennari áfangans var Ágústa Ragnarsdóttir.
Vörumerkjahlutinn fól í sér raunverkefni sem var hönnun merkis fyrir Kór Fjölbrautaskóla Suðurlands (Kór FSu) og þar átti að huga að öllum helstu þáttum vörumerkjahönnunnar. Nemendurnir, 16 samtals, stóðu sig mjög vel heilt yfir og dómnefnd hafði því úr nægu að moða en hana skipuðu Björgvin E. Björgvinsson, áfangastjóri og formaður dómnefndar, Guðbjörg Helga Guðmundsdóttir sviðstjóri, Daníel Smári Björnsson formaður nemendaráðs, Þórunn Hafdís Stefánsdóttir formaður Kórs FSu og Þórarinn F. Gylfason grafískur hönnuður.
Það var merki Karenar Önnu Björnsdóttur sem varð fyrir valinu en í útskýringu sem fylgdi því segir vinningshafinn: „Ég vildi notfæra mér einstakt form aðalbyggingar skólans og vinna einnig með nótur sem tengingu við tónlistina. Úr varð einhverskonar nótnahof inni í formi stofnunarinnar sjálfrar. Bláa litapallettan á að vekja tilfinningu trausts, lærdóms og ró. Blár er einnig liturinn í merki skólans. Letur merkisins á að vera auðlæsilegt og þola vel smækkun auk þess að vera passandi við útlit merkisins sjálfs. Merkið á að vera hægt að nota á margvíslegan máta og henta í alls konar framsetningu.“
Í öðru sæti samkepninnar varð merki Hugdísar Erlu Jóhannsdóttur og því þriðja merki Einars Ara Gestssonar. Úrslitin voru kunngjörð á jólatónleikum Kórs Fjölbrautaskóla Suðurlands sem nú á sitt eigið tákn sem hann getur notað við ýmis tækifæri í framtíðinni.
ár / jöz







