Norrænt samstarf

Allur hópurinn sem tók þátt í „Scandinavian Business Company“ á lokafundi í Huittinen.
Allur hópurinn sem tók þátt í „Scandinavian Business Company“ á lokafundi í Huittinen.

Nemendur í frumkvöðlafræði við FSu fóru til Finnlands og dvöldu þar vikuna 9.– 15. apríl sl. ásamt tveimur kennurum frá FSu. Ferðin var hluti af Nordplus Junior verkefninu „Scandinavian Business Company“. Markmið verkefnisins var að efla tengsl milli skóla og landa og stuðla að því að nemendur fari út í frumkvöðlastarf og nýti sköpunarkraft sinn. Fjórir framhaldsskólar frá þremur löndum tóku þátt í verkefninu; FSu, framhaldsskólinn Byåsen í Þrándheimi og tveir framhaldsskólar í Finnlandi, Ulvilan lukio í Ulvila og Lauttakylän lukio í Huittinen.

Samkvæmt áætlun hittust fulltrúar nemenda og kennara einu sinni á önn og unnu saman í eina viku. Í vinnuvikunum skiluðu nemendur verkefnum sem þau höfðu unnið að á önninni. Fyrsta vinnuvikan var haustið 2016 og hittist hópurinn þá í Noregi og sá framhaldsskólinn í Byåsen um dagskrá og skipulag. Fyrir réttu ári fór hópurinn til Ulvila og haustið 2017 tóku nemendur og kennarar í FSu á móti hópnum, samtals 35 manns.  Í þetta sinn var vinnuvikan í Lauttakylän lukio. Vel var tekið á móti hópnum og nemendur stóðu sig með prýði. Ferðin til Finnlands nú var síðasti hluti verkefnisins sem lauk þar með. 

Á þessum tveimur árum hafa nemendur heimsótt fjöldann allan af fyrirtækjum frumkvöðla í þátttökulöndunum, gestafyrirlesarar hafa komið í skólana og síðast en ekki síst hafa staðkunnugir farið með hópana í skoðunarferðir á áhugaverða staði í hverju landi. Nemendur frá öllum löndum voru sammála um að þátttaka í verkefninu hefði bætt enskukunnáttu þeirra og að þeir hafi myndað ómetanleg vinatengsl við nemendur frá hinum löndunum.