Nemendur á ferð í Slóvakíu

Ronald Guðnason og Gunnar Borgþórsson, kennarar ásamt nemendurm sínum í Slóvakíu. Nemendurnir eru:  …
Ronald Guðnason og Gunnar Borgþórsson, kennarar ásamt nemendurm sínum í Slóvakíu. Nemendurnir eru: Donna Renegado, Rósmary Steinarsdóttir, Ingibjörg Jóhannesdóttir, Nadía Styrmisdóttir, Emilía Öfjörð og Andrea Sjöfn Heimisdóttir.

Í vikunni 28. janúar til 2. febrúar fór hópur með 6 nemendum og tveimur kennurum í námsferð til Slóvakíu. Evrópskur Erasmus-styrkur gerði það þessum hópi kleift að kanna nýtt land og nýja menningu sem er Íslendingum annars frekar óþekkt. Heimamenn höfðu undirbúið glæsilega dagskrá sem allir nutu góðs af og er ljóst að við í FSu-teyminu verðum að vanda okkur verulega mikið þegar við verðum gestgjafar í haust, ef gæðin eiga að vera sambærileg.

Nemendahópurinn úr FSu voru einungis stúlkur að þessu sinni, og stóðu þær sig með prýði þegar það kom að nemendaskiptum. Áttu þær mjög oft frumkvæðið, blönduðu geði við aðra nemendur úr hinum þremur löndunum og voru afskaplega jákvæðar.

Mikil útikennsla átti sér stað, þar sem lært var um náttúruna og sveitalífið. Ein ganga í fjall- og skóglendi með leiðsögn endaði í náttúrusafni, þar sem unnið var úr hinu lærða. Á svipaðan hátt var farin ferð í helli sem annars er ekki opinn almenningi, en leiðsögumenn útskýrðu fyrir okkur það sem fyrir augu bar. Í og fyrir utan hellinn voru tekin vatnssýni sem unnið var með í náttúrusafninu til að sýna mismunandi gæði vatns.

Enn fremur fékk hópurinn þau forréttindi að læra um menningu Slóvakíu í gegnum söng, dans og matargerð. Öll ferðin var til fyrirmyndar og nemendur sem ekki þekktust mikið áður eru bestu vinkonur í dag. Kennarar í ferðinni voru þeir Ronald Guðnason og Gunnar Borgþórsson.