Námsmatið á hærra plan

Í vetur hafa 6 kennarar úr FSu stundað nám á meistarastigi við Menntavísindasvið HÍ. Námskeiðið sem um var að ræða nefndist „Að vanda til námsmats" í umsjón Ingvars Sigurgeirssonar. Hinn 27. maí sl. var haldin námstefna þar sem nemendur í námskeiðinu kynntu rannsóknir sínar.

Kennararnir úr FSu kynntu þrjú verkefni á námstefnunni. Ester Ýr Jónsdóttir fjallaði um námsmat í verklegum æfingum í samstarfi við Guðmund Grétar Karlsson kennara í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Brynja Ingadóttir, Elísabet Valtýsdóttir, Sigursveinn Már Sigurðsson og Vera Ósk Valgarðsdóttir fjölluðu um námsmöppur í tungumálakennslu. Helgi Hermannsson kynnti samanburðarrannsókn um tengsl matsaðferða við einkunnir og brottfall í FSu og ME, í samvinnu við Jón Inga Sigurbjörnsson kennara á Egilsstöðum.

Margt forvitnilegt kom fram á námstefnunni. Til dæmis má nefna að Helgi og Jón Ingi báru saman einkunnir í 63 sambærilegum áföngum í FSu og ME, og meðaleinkunnin var nánast sú sama í báðum skólunum.