Námskeið um næringu og mataræði

FSu stóð nýverið fyrir námskeiði um nýjar ráðleggingar Landlæknisembættis um matarræði fyrir starfsfólk mötuneyta allra skólastiga á Suðurlandi. Næringarfræðingurinn Hólmfríður Þorgeirsdóttir sem starfar hjá embættinu kom og flutti fyrirlestur um ráðleggingarnar og Guðríður Egilsdóttir matreiðslumeistari og fagkennari á Ferðamála- og matvælabraut skólans tók svo við með fræðslu um hvernig megi vinna með þessar nýju ráðleggingar í mötuneytum skóla. Guðríður og nemendur hennar sáu um að matreiða nokkra heilsusamlega rétti sem þátttakendur fengu að bragða á og runnu þeir ljúflega niður.
Alls tóku um 35 manns þátt í námskeiðinu, starfsfólk af leik-, grunn og framhaldsskólum á Suðurlandi og voru þátttakendur ánægðir með námskeiðið.
FSu er Heilsueflandi framhaldsskóli og er því lögð áhersla á að mötuneyti skólans bjóði upp á góða næringu fyrir nemendur og starfsfólk.