Menningarferð LKN

Fimmtudaginn 4. október var hin hefðbundna menningarferð LKN farin. Ríflega 80 nemendur úr LKN 106 fóru í ferðina, auk um 20 nemenda af starfsbraut og 10 kennara. Farið var í Alþingishúsið, Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsinu og á Þjóðminjasafnið. Eftir að hafa kortlagt vöruúrval í Kringlunni og skyggnst um í tónlistarhúsinu Hörpu var haldið í Þjóðleikhúsið á leikritið Með fulla vasa af grjóti. Veðrið lék við ferðalanga og hvarvetna voru móttökur góðar.

Alllöng hefð er fyrir þessum ferðum, sem hófust um 1990. Má ætla að um 3000 nemendur FSu hafi farið í menningarferð LKN (sem fyrstu árin nefndist reyndar SAM) frá upphafi. Þá reiknast vísum mönnum svo til að einn úr kennarahópnum hafi nú farið 40 slíkar ferðir eða þar um bil.