Manúela Maggý vann söngkeppnina
Manúela Maggý Friðjónsdóttir Morthens vann söngkeppni NFSu sem fram fór í Iðu í gærkvöldi. Manúela Maggý söng lagið Ekkert breytir því með Sálinni hans Jóns míns. Hugrún Erla Jóhannsdóttir varð í öðru sæti og Leví Abranja Jónasson í því þriðja. Einnig voru veitt verðlaun fyrir frumlegasta atriðið en þau hlaut Ásthildur Cesil Bjarkadóttir en hún flutti frumsamið lag.
Níu söngvarar tóku þátt og stóðu sig öll með mikilli prýði. Keppnin var hin glæsilegasta. Þétt var setið í Iðu og boðið upp á ýmis skemmtiatriði. Ronja Lena flutti sigurlagið í fyrra og unglingahljómsveitin Frú Eydís flutti nokkur 80's lög en þema kvöldsins var einmitt 80's eins og sást glögglega á klæðaburði kynnanna. Að auki sýndi Dansstúdíó WC kröftugan dans í hléinu. Hljómsveitin Koppafeiti spilaði undir hjá öllum keppendum og lék nokkur lög meðan dómnefndin réði ráðum sínum.
Manúela Maggý verður því fulltrúi FSu í söngkeppni framhaldsskólanna sem haldin verður næsta vor.







