Lýðræði og seigla

Hópurinn heimsótti Þingvelli.
Hópurinn heimsótti Þingvelli.

FSu er þátttakandi í evrópsku samstarfsverkefni í gegnum áætlun sem nefnist Erasmus +.

Í vikunni sem leið voru 24 kennarar í heimsókn hjá okkur í tengslum við verkefnið, Lýðræði og seigla (Democratic European schools for success – DESS). Kennararnir komu frá samstarfslöndunum fimm: Rúmeníu, Búlgaríu, Þýskalandi, Spáni og Portúgal.

Megininntak heimsóknarinnar til Íslands voru námskeið í tengslum við seiglu (á ensku grit), mannkostamenntun, núvitund, jóga og lýðræði. Námskeiðin og fyrirlestrarnir voru ýmist haldnir af kennurum skólans eða öðrum sérfæðingum.

Auk þess að sitja námskeiðin fór hópurinn í kynnisferðir m.a. í Heilsustofnun NLFÍ, Sunnulækjarskóla, til framkvæmdastjóra Sveitarfélagsins Árborgar, í Selfosskirkju, í Raufarhólshelli, á Þingvelli, að Geysi og Gullfoss auk þess að stoppa í Skálholti.

Færum við þeim sem tóku á móti okkur bestu þakkir fyrir móttökurnar og kynningu þeirra á metnaðarfullu starf á Suðurlandi. Samstarfsaðilar okkar í verkefninu voru gríðarlega ánægðir með þá dagskrá sem þeim var boðið upp á hér á landi; þótti hún vel skipulögð, fagleg og lærdómsrík.

Fjölbrautaskóli Suðurlands sýnir framsýni og metnað með því að taka þátt í samstarfsverkefni sem þessu. Þátttakan gefur dýrmætt veganesti til eflingar lýðræðislegar hugsunar og seiglu í skólastarfinu.