Lokaverkefni og örverkasýning í leiklist

Nemendur frumsýndu örverk eftir nemendur í íslensku... með grímur.
Nemendur frumsýndu örverk eftir nemendur í íslensku... með grímur.

Nemendur í leiklist í FSu höfðu í nógu að snúast á síðustu dögum kennslu í byrjun desember, en þá fengu þau að snúa aftur í kennslustundir með þeim takmörkunum sem nú gilda. Þau frumsýndu átta örverk sem nemendur í íslenskuáfanganum Ritlist og tjáning (ÍSLE3RT05) höfðu skrifað. Æfingar í kennslustundum voru stopular vegna fjarkennslu og héldu nemendur sér heitum með því að æfa í hópum á Teams. Frumsýningin gekk vonum framar og gríðarlega gaman að sjá þessi verk komast á svið. Magnað var að sjá hversu vel tókst að koma þessu til skila þrátt fyrir að allir leikarar væru með grímur.  

Að auki skiluðu nemendur fjölbreyttum lokaverkefnum í sömu viku. Þar kenndi ýmissa grasa, myndverkagjörningar, stuttmyndir, ljóðaflutningur og flutningur á frumsamdri tónlist eftir nemendur sjálfa. Meðfylgjandi myndband gerði Andrea Sjöfn Heimisdóttir skemmtilegt heimagert verk þar sem hún leikur sjálf öll hlutverk. Lokaverkefnin unnu nemendur heima og þurftu að vera ansi hugmyndarík og útsjónarsöm í því námsumhverfi sem ríkt hefur á haustönn. Kennari í leiklist er Guðfinna Gunnarsdóttir.