LJÓMÞOKAN Í SVERÐI ÓRÍONS

STJÖRNUFRÆÐI er kennd við FSu og sér raungreinakennarinn Hekla Þöll Stefánsdóttir um hana. Því má bæta við að sjálf lauk Hekla stúdentsprófi frá skólanum fyrir nokkrum árum. Að hennar frumkvæði fjárfesti skólinn í stjörnusjónauka sem víkkar út og byltir kennslunni. Nemendur fengu að prófa sjónaukann í fyrsta sinn að kvöldi 8. apríl og að Heklu sögn tókst sá gjörningur mjög vel „þrátt fyrir að það dimmi núna seint og það sé mjög kalt í lofti” bætir hún við. „Nemendur skoðuðu tunglið, Andrómedu, sjöstirnið og gerðu tilraun til að skoða ljómþoku í sverði Óríons en það var enn aðeins of bjart til að sjá hana.”

Við iðjuna með Heklu og nemendum hennar var Grétar Halldórson raungreinakennari í Sunnulækjarskóla en hann sýndi þeim hvernig hægt er að taka myndir með símanum og var sjálfur með sérstaka myndavél sem náði að fanga miðbungu Andrómedu. Meðfylgjandi mynd af tunglinu tók hins vegar sonur Heklu á símann sinn í gegnum stjörnusjónaukann.

jöz / hek