Ljóðasamkeppni - sigurljóð

„Ég nenni ekki að lesa lengur”

Niðurstöður dómnefndar í ljóðasamkeppni íslenskudeildar og bókasafns FSu

Dómnefnd skipuðu: Kristín Þórarinsdóttir, Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttir og  Örlygur Karlsson.

 

LISTIN FAGRA

 

Við heiðan himin, Listin fæðist.

Yndi allra er.

Um fagra móa, Listin læðist.

Tínir fögur ber

 

vex úr grasi, Listin lærir.

Kynnist ungri mey.

Missir stúlku, Listin særir.

Faðir sagði nei.

 

Yfir sjóinn, Listin talar.

Skóla gengur í.

Drakk við barinn, Listin hjalar.

Ferðast heim á ný.

 

Skáldskap leggur, Listin yrkir.

Íslands verður stolt.

Fegurð spinnur, Listin virkir

landsins móa og holt.

 

Veikur verður, Listin kveikir,

allra manna von.

Vissuð þið að Listin heitir

Jónas Hallgrímsson.

 

Magnús Ágúst Magnússon

 

(SKÓLALJÓÐ)

 

Bless kæri vinur,

þú sem ég hef elskað,

þú sem ég hef hatað.

Takk fyrir árin,

þú sem hefur kennt mér,

þú sem ég hef lært af.

Nú kveð ég þig,

þú sem ég fékk nóg af,

þú býrð í mínu hjarta.

Tími til að fara

frá þér sem lést mig strita,

frá þér sem leiddir mig.

Ég mun þér aldrei gleyma,

svo lengi sem ég er.

Ég lét mig um þig dreyma,

ég endaði hjá þér.

Hér átti ég heima,

bless skóli, nú ég fer.

 

Vala Haux

 

AÐ VONA

 

Ekki bara vonlaust

Kannski dáið

Hér eru litlir fuglar

þrátt fyrir myrk ský

 

Kannski hafa trén öskrað

þegar sverðin hafa komið

 

Maður sem hefur kannski

sungið þegar allt var fallegt

núna tilheyrir hann jörðinni

þaðan sem hann var kominn en mun ekki endilega rísa aftur

 

Grasið er hvítt og blátt

en gras þarf ekki alltaf

að vera grænt

 

Kannski getur

þetta allt komið

til baka

 

Þegar maður sér

eitt lítið blóm

sem er ekki búið að drepa

og vill ekki deyja, ekki strax

 

Þetta litla blóm getur galdrað

og þá getur maður vonað

 

Gunnlaugur Bjarnason

 

 

NÁMSLEIÐI

 

Hvergi er friðinn að finna.

Fjandans og endalaus vinna.

Þrekið er farið,

þróttinum varið

í þreytandi skyldu að sinna.

 

Lærdómur liggur í stöflum.

Nei, hann liggur í hólum og sköflum!

Ég hvergi get gengið,

nú nóg hef ég fengið

af helvítis prófum og köflum.

 

Ég nenni ekki að lesa lengur.

Af lærdómnum kominn er strengur

í hendur og bak,

í hálsinum tak

og heimanám hreint ekkert gengur.

 

Iðunn Rúnarsdóttir