Lestrarhestar í FSu

Fjölbrautaskóli Suðurlands tekur þátt í landsleiknum Allir lesa sem hefst föstudaginn 27. janúar og lýkur á konudaginn, 19. febrúar. Allir sem vilja taka þátt skrá sig inn á vefinn allirlesa.is og ganga í sitt lið, Fjölbrautaskóli Suðurlands sem er sameinað lið nemenda og alls starfsfólks. Allir lesa er landsleikur í lestri og gengur á að skrá inn á vefinn allirlesa.is þá titla sem þeir lesa og þann tíma sem þeir verja í lestur. Það er tíminn sem fer í lestur sem gildir, ekki blaðsíðufjöldi. Allir lestur er gjaldgengur, hvort sem lesin eru skáldsögur, tímarit, myndasögur, fræðibækur, námsbækur eða hvað annað. Lesefnið má vera á hvaða formi sem er; prentaður texti, rafbækur og hljóðbækur hafa jafnmikið vægi. Einnig má skrá þann tíma sem varið er í að lesa fyrir aðra. Einstaklingskeppni er nýbreytni í ár svo nú verður í fyrsta skipti ljóst hver er aðal lestrarhestur landsins. Hver þátttakandi getur keppt bæði sem einstaklingur og í liði, eða valið aðeins annan kostinn. Leynist lestrarhestur landsins kannski í FSu?