Leiklestur í Bókakaffinu

Til heiðurs vorkomu og kennslulokum í FSu ætla nokkrir nemendur skólans að lesa upp úr frumsömdum leikverkum sínum í Sunnlenska bókakaffinu fimmtudagskvöldið 29. apríl. Allir áhugasamir eru boðnir að koma og hlýða á leiklesturinn sem hefst kl. 20.00. Um er að ræða sextán nemenda hóp sem hefur stundað nám í skapandi skrifum á vorönn 2010 og má líta á þessi stuttu leikverk þeirra sem upphaf og endi hins skapandi starfs því um leið og þau kveðja áfangann á lestri eigin orða heilsa þau nýju vori og nýrri sköpun.

Yfirskrift dagskrárinnar HREINSUN vísar til almennra þrifa og vorhreingerninga sem fram fara í þjóðfélaginu og um leið til hugtaks Aristótelesar [384-322 f. kr.] sem fyrstur vestrænna manna fjallaði um leiklist í riti sínu Um skáldskaparlistina. Aristóteles taldi skáldskapinn vera æðri sagnfræði og skyldari heimspeki vegna þess að „skáldskapurinn tjáir fremur hið almenna en sagnfræðin hið einstaka.“ Um leið fullyrti hann að mikilvægi skáldskaparins fælist í því „að koma jafnvægi á tilfinningalífið“ og þess vegna væri það hlutverk leiklistarinnar að vekja til jafns „skelfingu og vorkunn í huga áhorfandans“ og framkalla með þeim hætti HREINSUN hugans.

Eins og áður sagði eru allir boðnir velkomnir. Með lestrinum verða boðnar til sölu veitingar að hætti Sunnlenska bókakaffisins.