Landinn skoðar veggjalist

Veggurinn góði er farinn að vekja athygli út fyrir hreppamörk og þykir okkur sem að honum standa þetta afar ánægjulegt. Hvaða vegg eru manneskjurnar að tala um kann einhver að spyrja nú? Um er að ræða langan og áður gráan vegg við bílastæði Fjölbrautaskóla Suðurlands, en í annað skipti er nú boðið upp á svokallaðan veggjalistaráfanga á myndlistarbraut skólans og veitti Árborg, eigandi veggjarins, blessunarlega leyfi sitt til þessa athæfis.

Veggjalistarverkið er óðum að taka á sig endanlega mynd og er sem fyrr segir farið að vekja athygli út fyrir hreppamörk – það mikla athygli að teymi frá sjónvarpsþættinum Landanum á RÚV mætti til okkar og tók upp efni í þáttinn, ræddi við nemendur og sýndi þau að störfum. Við viljum hvetja ykkur til að horfa á Landann nk. sunnudagskvöld (25. sept.) enda virkilega skemmtun fyrir augað þarna á ferð sem ber augljós merki þeirrar skemmtunar sem þetta ferli hefur allt verið.

Ágústa Ragnarsdóttir og Elísabet Helga Harðardóttir, myndlistarkennarar