Knús, kærleikur og samstaða í nóvember
EKKO teymi Fjölbrautaskóla Suðurlands hefur undanfarið unnið ötullega að málefnum sem snúa að einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi. EKKO teymið saman stendur af náms- og starfsráðgjöfum og félagsráðgjafa skólans. Vinnan hefur meðal annars falið í sér gerð nýrrar EKKO-áætlunar fyrir skólann og útgáfu fræðslubæklings fyrir nemendur sem mun birtast í lok þessa mánaðar.
Nemendur hafa verið virkir þátttakendur í ferlinu. Komið með hugmyndir að forvörnum, deilt sinni sýn á góð samskipti og haft áhrif á innihald bæklingsins. Þessi samráðsvinna er mikilvægur þáttur í að skapa öruggt skólasamfélag þar sem öll geta notið sín.
Í tilefni alþjóðlegs baráttudags gegn einelti þann 8. nóvember sl. stóð EKKO teymið fyrir „knúspásu“ mánudaginn 10. nóvember. Þá mynduðu nemendur og starfsfólk kærleikshring utan um skólann. Gjörningurinn var táknrænn og minnti á að við getum öll lagt okkar af mörkum til að skapa jákvætt og öruggt umhverfi. Knúspásan heppnaðist afar vel og það var ánægjulegt að sjá samstöðu allra sem tóku þátt.
Alþjóðlegur dagur gegn kynbundnu ofbeldi er 25. nóvember. Þann dag viljum við, í samstarfi við nemendur, leggja áherslu á gildi virðingar, umhyggju og kærleika í samskiptum, en allur nóvembermánuður er sérstaklega tileinkaður því að efla jákvæð samskipti.








