Kanadískir kennaranemar í FSu

Kennaranemar frá Kanada settu svip sinn á skólastarfið á vorönn, en þeir dvöldu hér á landi í 5 vikur og kláruðu lokavettvangsnámið sitt hér áður en þeir héldu heim til að útskrifast sem kennarar. Átta nemar kenndu við FSu, þrír við Vallaskóla og þrír við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri. Hópurinn heimsótti einnig leikskóla í Árborg og kynnti sér kennslu þar. Prófessor í kennslufræðum fylgdi hópnum til að fylgjast með hópnum að störfum, en kennaranemarnir kenndu auk ensku á öllum stigum, jarðfræði, frönsku, náttúrufræði, eðlisfræði, íþróttir, lífsleikni, félagsfræði, upplýsingatækni og kynntu sér kennslu á starfsbraut. Að auki notaði hópurinn tækifærið í páskaleyfinu og skoðuðu land og þjóð, fóru í fjallgöngur og skoðunarferðir.kans2

Þetta er í annað sinn sem að hópur kennaranema kemur frá Kanada til FSu til að stunda vettvangsnám, en fyrsti hópurinn kom árið 2009, í bæði skiptin hafa hóparnir gist í Gesthúsum.

Aðdragandi þessara góðu samskipta er sá að FSu fór í starfsmannaferð til Nova Scotia í Kanada vorið 2008. Fyrrum skólameistari Sigurður Sigursveinsson tók að sér að skipuleggja þá ferð: „Ég náði þá sambandi við gamlan skólafélaga frá Nýfundnalandi, Jeff Orr. Hann hafði deilt skrifstofu með mér í St. John´s 1980-82. Þarna 2008 kom í ljós að hann var orðinn Dean of Education í St.FX háskólanum í Antigonish í Nova Scotia. Það varð því úr að hann skipulagði ferðina fyrir okkur 2008, og nemendurnir komu svo árið eftir. 2010 fór svo Sigursveinn sonur minn til náms í StFX og tók þar meistarapróf í menntunarfræðum.“

Er það mál manna að þessar heimsóknir hafi gefist einkar vel, kennarnemarnir hafa verið ótrulega duglegir að aðlaga sig íslensku skólastarfi og þeir duglegir að koma með nýjungar og skemmtilega vinkla á kennsluefnið.