JÓLA DÝRGRIPIRNIR Í GLUGGUM SKÓLANS

Jólamyndirnar í Fjölbrautaskóla Suðurlands setja mikinn svip á húsnæðið og umhverfi þess. Þetta er viðvarandi hefð frá þeim tíma þegar sómamaðurinn Árni Sverrir Erlingsson húsasmíðameistari kenndi við Fjölbraut en Árni var upphafsmaður, hugmyndasmiður og aðalhvatamaður þessa verkefnis.

Að sögn Elísabetar H. Harðardóttur núverandi myndlistarkennara vildi Árni fá JÓL í skólann eins í gluggum grunnskólanna. Stigagangarnir fengu króka til að halda uppi myndunum og eins var útbúin haganleg geymsla í myndlistarhorninu þar sem myndirnar voru geymdar milli ára.

„Ég kenndi nokkra myndlistaráfanga og að beiðni Árna lagði ég verkefnið fyrir nemendur mína. Það tengdist viðfangsefnum áfanganna á einhvern hátt og hafði líka tengingu við jólin eða var algjörlega abstrakt. Grunnurinn í myndunum er svart karton sem myndar líka ramma og gefur styrkinn. Svo eru klippt út form og þau fá þessa ljósu liti með gegnsæjum silkipappír eða kreppappír.”

Ennfremur segir Elísabet að „flestar myndirnar eru merktar höfundum og komi þar fyrir ártölin 1998 og 1999. Það hefur líklega tekið fjórar annir að fylla í alla stigaganga.”

Hefð er fyrir því að á síðustu kennsludögum fyrir jól fær einhver myndlistarhópurinn þann heiður að hengja myndirnar upp. Þá ganga nemendur um skólann með löng prik og þessa dýrgripi sem eru orðnir algjörir forngripir og sýna kúnstir sínar og lagni í að koma keðjunni á myndunum á krókana. Aðeins þrisvar hefur það komið fyrir að nemendur fengu ekki að hengja upp jólamyndirnar.

„Einu sinni var ég of sein” segir Elísabet „og hef líklega verið veik síðustu viku fyrir jól. Þá fékk ég í lið með mér tvo hávaxna kennara þá Glugga-Ægi og Jóla-Helga til að hengja upp. Svo leysti hún Ágústa samkennari minn mig af þegar ég  var í námsorlofi og þekkti þá ekki þessa hefð. Kennararnir kvörtuðu hástöfum yfir því hversu sein hún væri á sér en hún gerði það að lokum, ein og sjálf.”

Þessa önnina fengu nemendur ekki þennan heiður vegna þess að þeir voru á síðustu stundu með verkefnaskil. Svo að við myndlistarkennararnir skemmtum okkur við að hengja þær upp.

GLEÐILEGA JÓLAHÁTÍÐ : - )

 

ehh/jöz