Jarðfræðinemendur á ferð og flugi

Nemendur í jarðfræði 103 fóru í dagsferð nýlega sem nemendur skipulögðu alveg sjálfir allt frá því að bóka rútu í og að skiptast á að vera farastjórar ferðarinnar. Ferðin tókst vel, nemendur stóðu sig með sóma og voru til fyrirmyndar í alla staði. Auk nemenda voru með í för tólf norskir nemendur ásamt þremur kennurum sem höfðu áhuga að kynnast íslenskum nemendum og námsefni þeirra. Einnig fóru tveir kanadískir kennslufræðinemar með í ferðina sem höfðu unnið með hópunum vikurnar á undan þar sem þau þjálfuðu sig sem kennarar. jar2Hópnum fannst tilvalið að þau kæmu í jarðfræðiferðina þar sem þau upplifðu með nemendum jarðfræðina sem þeir hefðu verið að læra um í vetur. Meðal annars var farið í jöklagöngu á Sólheimajökul þar sem reyndir jöklaleiðsögumenn tóku vel á móti hópnum, þeir Sigurður Bjarni Sveinsson og Stefnir Gíslason en þeir eru eigendur fyrirtækisins South Iceland Adventure sem er staðsett á Hvolsvelli. Einnig var Anna Guðrún Þórðardóttir, nemandi við skólann, fengin til að hjálpa hópnum á jöklinum en hún er þaulreyndur jöklaleiðsögumaður.  Auk þess að skoða skriðjökulinn í þaula og sjá með eigin augum þetta mikla graftól var einnig stoppað við Skógafoss, Seljalandsfoss og Gljúfrabúann.

jar1Þetta er önnur ferð hópsins í vetur, en í febrúar fór sami hópur í ferð þar sem meðal annars var farið að skoða Kerið, Þingvallaþjóðgarð og Bláa lónið.

Kennari er Aníta Ólöf Jónsdóttir. Fleiri myndir má sjá á fésbókarsíðu skólans.