Innrás mörgæsa

Sumum brá í brún um níuleytið föstudaginn 26. nóvember þegar hávær mörgæsaflokkur ruddist inn í skólann og truflaði hefðbundið skólastarf. Hvað var á seyði? Voru gróðurhúsaáhrifin orðin svona alvarleg? Mörgum létti hins vegar þegar ljóst varð að hér voru á ferðinni brottfarendur skólans að dimittera. Að venju sungu þeir og trölluðu og veittu samnemendum og kennurum ýmsar viðurkenningar. Sérstaka athygli vakti viðurkenning sem Örn Óskarsson hlaut sem „Besserwisser skólans“, við litla hrifningu þýskudeildarinnar. Að loknu kjötsúpusötri hurfu mörgæsirnar út í nóvembernæðinginn í óvissuferð, þó vonandi ekki alla leið á Suðurskautið.