Hyskið höktir enn

Laugardaginn 2. maí fór fram fyrri leikurinn í árlegri briddskeppni milli liðs FSu, Tapsárra Flóamanna, og Hyskis Höskuldar. Að þessu sinni fór keppnin fram í Austvaðsholti í Landsveit. Þetta er 21. árið og enn hefur ekki verið greint á milli með afgerandi hætti hvort liðið er betra. Síðustu ár hefur lið FSu einokað bikarinn sem keppt er um og ef eitthvert mark er takandi á úrslitum í þessum fyrri leik ársins er ekki að sjá að lát verði á þeirri sigurgöngu.  Leikar fóru 75-73 fyrir Flóamenn og  töldu  Hyskisfélagar það stórtap en Flóamenn voru sammála um að leikurinn hafi verið í nokkru jafnvægi.