Hruni heimsóttur

Fimmtudaginn 16. apríl heimsóttu  nemendur í ÍSU (íslensku sem annað tungumál) kirkjustaðinn Hruna í Hrunamannahreppi. Með í för voru kennarar þeirra, Hannes og  Hrefna en þriðji kennarinn Elín Una, býr í Hruna og tók á móti hópnum.

Nemendur fengu léttan hádegisverð, röltu um staðinn, tóku hús á landnámshænum og öðrum bústofni.  Húslestur fór fram í stofunni í Hruna. Það var hin þekkta  þjóðsaga um Dansinn í Hruna sem var lesin og rædd við góðar undirtektir. Hópurinn skundaði síðan upp á Hrunann, lagðist niður þar sem sagan segir að kirkjan hafi sokkið og reyndi að heyra ýlfrið í dansfólkinu sem sagt er að enn hljómi við góðar aðstæður.  Ekkert heyrðist þó að þessu sinni vegna vindbelgings.  Sóknarpresturinn í Hruna opnaði kirkjuna og sagði sögu hennar. Þá var og gengið að Hrunalaug en enginn var þó svo hraustur að skella sér ofan í. isa2  

Þetta var í annað sinn á þessum vetri sem nemendur og kennarar ísunnar bregða undir sig betri fætinum og fara af bæ en á sl. haustönn var Gamli bærinn í Austur - Meðalholtum heimsóttur.  Tilgangur ferðanna er að auka víðsýni nemenda og styrkja vináttu og samkennd innan hópsins og virðist það hafa heppnast vel.