Heldur fast um bikarinn

Höskuldur, foringi Hyskisins, grípur glaður í bragði um langþráðan bikar.  Árni Erlings og Hannes Stefáns brosa í kampinn, vitandi fyrir víst að gleði Hyskisins verður skammvinn, önnur keppni að vori og Tapsárir Flóamenn engin lömb að leika við.    

Um helgina var haldin 44 bridgekeppnin í einvíginu endalausa milli Hyskis Höskuldar og Tapsárra Flóamanna, bridgesveitar starfsmanna í FSu .   Að þessu sinni fór keppnin fram í Hrafntinnuskeri í einmuna blíðu og snjóleysi.   Tapsárir Flóamenn unnu þennan einvígisleik 75-55 eða 18-12 í vinningsstigum.  Fyrri einvígisleikur ársins tapaðist örlítið stærra þannig að árangur Hyskisins var betri þetta árið.  Sumir voru á því  að heildarhamingja heimsins hafi aukist við þessi úrslit, þ.e. Hyskið hreppti bikarinn en Flóamenn unnu leikinn.   Eftir 22 ár er staðan í einvíginu þannig að Flóamenn hafa skorað 3646 impa en Hyskið 3627.  Flóamenn hafa unnið 22  leiki en Hyskið 19 og þrír flokkast sem jafntefli, þó stundum hafi jafntefli verið talið sem stórsigur, sértaklega af þeim Hyskismönnum.    Hyskið hefur þó enn sem komið er unnið bikarinn oftar til varðveislu eða 12 skipti af 22.