Heimsókn frá Palestínu

Tveir hjálparstarfsmenn frá Rauða hálfmánanum þeir Muhammed Alqahawaji Amal og Jawdat Almuhtaseb heimsóttu skólann í liðinni viku. Rauði hálfmáninn eru samtök sambærileg við Rauða krossinn hér á landi. Mennirnir eru hér staddir til að fá fræðslu og þjálfun í sjúkraflutningum auk þess sem þeir kynnast starfi Rauða krossins hér á land. Að auki ferðast þeir um landið og heimsækja starfsstöðvar Rauða krossins og nokkra skóla.

Mennirnir koma fá Hebron annars vegar og Gaza hins vegar. Þeir skoðuðu skólann og fóru í tíma hjá Rósu Mörtu Guðnadóttur íslenskukennara og Lárusi Bragasyni sögukennara. Þar sögðu þeir frá ástandinu í Palestínu og lýstu lífskjörum þar. Þeim þótti merkilegt að hafa dvalist nokkra daga á Íslandi og aldrei þurft að sýna skilríki. Nemendur sýndu fyrirlestri þeirra mikinn áhuga og spurðu margs. Á myndinni sjást þeir félagar ásamt Lárusi Bragasyni og nemendum hans.