HEIMSÓKN BANDARÍSKS BLAÐAMANNS OG SKÁLDS

Heimsóknir gesta eru alltaf ánægjuleg tíðindi í skólastarfi. Þeir koma líka í ákveðnum tilgangi og með markmið í huga. Rithöfundar sem lesa upp, leikhópar sem setja upp sýningu, tónlistarfólk, fræðimenn af öllu tagi, sálfræðingar að tala um geðheilbrigði, prestar að tala um sorgarviðbrögð, læknanemar með fræðslu um eðlilegt kynlíf eða ungir fulltrúar annarra skóla að kynna nám að loknum framhaldsskóla og svo mætti lengu telja. Það er alltaf mikilvægt og jákvætt að brjóta upp hefðbundið skólahald með heimsóknum.

Miðvikudaginn 20. október fengu nemendur á 3. þrepi í barna- og unglingabókmenntum í heimsókn bandaríska rithöfundinn og blaðamanninn Lori Kozlowski frá Los Angeles en hún dvaldi í sama mánuði á Gullkistunni á Laugarvatni við ritun eigin skáldsögu sem gerist á Íslandi og á meðal íslenskra unglinga. SJÁ: http://www.lorikozlowski.com/

Langaði hana að fræðast um viðhorf og gildismat ungs fólks á Íslandi. Eftir almenna kynningu og spjall um unglingabækur óskaði hún eftir að fá að taka viðtöl við sex nemendur. Svæðið fyrir framan stofu 201er sérlega hentugt og hlýlegt til þess. Hún sat með blokk og spurði þau eins og reyndur blaðamaður hvernig væri að alast upp á Íslandi og um fyrstu minningu þeirra í barnæsku? Hvað þau gera sér til skemmtunar og hvernig þau skemmta sér? Hún spurði um vonir þeirra og væntingar um framtíðina og hvernig þau sjá heiminn eftir tíu ár? Hvað þau langar til að gera í framtíðinni og hvort þau séu meðvituð um loftslagvánna svo nokkuð sé nefnt.

Allt mun þetta rata í unglingabókina þegar hún kemur út. Nemendur sýndu Lori áhuga og því sem hún var að gera. Þeir stóðu sig allir með prýði, voru afslöppuð og frjáls í hugsun og vildu öll halda áfram að búa á Íslandi í framtíðinni. Lori var bæði þakklát fyrir að fá þetta tækifæri og heilluð af nemendum FSu.

jöz.