HEIÐURSMAÐUR Í HEIMSÓKN

Eldri og yngri stjórnendur FSu við skólameistaravegginn. Þórarinn Ingólfsson, Heimir Pálsson, Sigurð…
Eldri og yngri stjórnendur FSu við skólameistaravegginn. Þórarinn Ingólfsson, Heimir Pálsson, Sigurður Sigursveinsson, Örlygur Karlsson, Sigursveinn Sigurðsson og Olga Lísa Garðarsdóttir.

Einhvern tímann sagði einhver að óvæntar heimsóknir væru skemmtilegastar. Það sannaðist mánudaginn 12. febrúar síðastliðinn þegar Heimir Pálsson fyrsti skólameistari FSu kom í stutta heimsókn í skólann ásamt Örlygi Karlssyni sem sjálfur gegndi stöðu skólameistara og aðstoðarskólameistara um langan tíma. Heimir hafði þá fyrr um daginn haldið erindi í lestrarfélagi eldri borgara á Selfossi þar sem fjallað er um Íslendingasögur. Sjálfur er Heimir norrænu- og íslenskufræðingur og hefur meðal annars samið kennslubækur um íslenska bókmenntasögu sem kenndar hafa verið við FSu. Hann gegndi síðast lektorsstöðu í norrænum fræðum við hinn aldna og rómaða Uppsalaháskóla í Svíþjóð.

Heimir stýrði skólanum á upphafsárunum frá 1981 til 1983 þegar svokölluð Hlaupabraut var hið eiginlega kennslurými eða andrúm og ekkert eiginlegt skólahúsnæði risið. Um þennan tíma segir á vefsíðu FSu: „Bæjarstjórn Selfoss tók forystu að stofnun FSu og rak hann í tvö ár. [. . .] Kennsluhúsnæði var á mörgum stöðum og hlupu nemendur á milli skólastofa. Þar kom upp nafnið Hlaupabrautin.” Í riti sínu Fjölbrautaskóli Suðurlands - Hornsteinn í héraði 1981 – 2011 segir Gylfi Þorkelsson meðal annars um þennan tíma: „Það var landnemabragur á hlaupabrautinni og mikil samstaða manna á meðal. Samþykkt teikning að glæsilegu skólahúsi lá fyrir og engan óraði fyrir öðru en nýja húsið væri handan við hornið. Skólameistarinn [Heimir] var ákafamaður, afdráttarlaus foringi sem vildi keyra hlutina áfram, hvatti sitt lið til dáða og blés því í brjóst á hlaupunum, svo engum datt í hug að draga af sér til að hlutirnir gengju sem best.” Ummælin um Heimi eru höfð eftir Ásmundi Sverri Pálssyni sem um langt árabil starfaði við FSu.

jöz.