Hársnyrting í FSu

Í bókasafni skólans má sjá afrakstur nýs áfanga, Hár172-s, sem kenndur var í fyrsta sinn á haustönn. Um er að ræða nýjan valáfanga sem er bæði skemmtilegur og skapandi og þjálfar samhæfingu hugar og handa. Nemendur fá innsýn í hársnyrtiiðn bæði sem fagiðn og þjónustufag og læra frá grunni að gera einfaldar hárgreiðslur og fá þjálfun í að móta eigin hugmyndir þar sem sköpunargleðin fær að njóta sín.  Kennt er að þvo hár, nudda hársvörð og um mikilvægi heilbrigði hárs og hársvarðar.

Á vorönn verður kenndur framhaldsáfanginn Hár 272-s.  Þá verður lögð áhersla á að kenna nemendum símasvörun og móttöku  viðskiptavina. Kennd verða  helstu störf sem aðstoðarmanneskja á hársnyrtistofum þarf að kunna og gerð ferlibók. Nemendur fá kennslu í umhirðu húðar, léttri förðum og búa til andlitsmaska og djúpnæringu úr náttúrulegu hráefni. Í lok annar fá nemendur að spreyta sig á lifandi módeli sem þeir greiða og farða.  Að loknum þessum tveim áföngum á nemandi að geta sótt um starf aðstoðarmanneskju á hársnyrtistofum og getur þá framvísað ferlibók sinni sem sönnum fyrir þekkingu á starfinu. Kennari er Arna Árnadóttir, hársnyrtimeistari.