Hann á afmæli í haust...

Fjölbrautaskóli Suðurlands verður 30 ára í haust og hafa aðstandendur skólans fullan hug á að halda upp á afmælið með pompi og prakt. Hugmynda hefur verið aflað hjá starfsfólki skólans og fimmtudaginn 10. mars var komið að nemendum að láta hugmyndaflugið njóta sín í umsjónartíma. Hvað á að gera í tilefni af tímamótunum? Hvernig er best að fá sem flesta til að taka þátt í afmælinu? Nemendum eru þökkuð góð viðbrögð og góðar tillögur þeirra rötuðu í hugmyndabanka afmælisnefndarinnar. Umsjónartíminn var á vegum verkefnisins „Skólinn í okkar höndum“ og miðaði að bættum skólabrag. Markmiðið er að gera gott skólastarf betra og efla heildstætt lærdómssamfélag með því að virkja allt lærdómssamfélagið til þátttöku í faglegu innra starfi FSu.