Hæfileikakeppni á Egilsstöðum

Hópurinn skemmti sér vel á hæfileikakeppninni.
Hópurinn skemmti sér vel á hæfileikakeppninni.

Miðvikudaginn 11. apríl lögðu 7 nemendur ásamt tveimur starfsmönnum af starfsbraut af stað í þriggja daga ferð til Egilsstaða. Erindi ferðar var að taka þátt í og/eða horfa á hæfileikakeppni starfsbrauta sem Menntaskólinn á Egilsstöðum stóð fyrir.

Atriði FSu hét FSU er okkar en FSu fékk leyfi hjá Emmsjé Gauta til að breyta texta lagsins Reykjavík er okkar! Flytjendur voru Jón Ingi, Pétur Gabríel, Natalía Perle og Sæbjörg Helga en atriðið varð til hjá flytjendum í hugmyndavinnu með Guðfinnu Gunnarsdóttur leiklistarkennara skólans sem þjálfaði flytjendur.

Skemmst er frá því að segja að ferðin gekk í alla staði mjög vel. Ekið var til Egilsstaða og stoppað víðs vegar á leiðinni. Gist var á Hallormsstað í tvær nætur í sumarhúsi þar sem fór vel um mannskapinn. Veðrið var með eindæmum gott og naut hópurinn þess að skoða umhverfið, fara í sund og spóka sig í góða veðrinu.

Hæfileikakeppnin gekk vel og þó svo FSu hafi ekki unnið til verðlauna var atriði þeirra flott. Eftir keppnina var diskótek sem allir skemmtu sér konunglega á. 

Svona ferðalag kostar sitt og fyrir ferðina höfðu nemendur haldið bingó á Kátum dögum í skólanum til fjáröflunar. Nemendur komu ekki að tómum kofanum þegar þeir báðu um bingóvinninga hjá fyrirtækjum á Selfossi og fengu úrval flottra vinninga. 

Hér að neðan má sjá atriði FSu á hæfileikakeppninni.