Gunnar Guðni sigraði

Gunnar Guðni Harðarson sigraði í hinni árlegu söngkeppni FSu sem haldin var fimmtudagskvöldið 12. nóvember og verður því fulltrúi FSu í Söngkeppni framhaldsskólanna 2010. Lagið sem Gunnar Guðni söng til sigurs heitir God Knows með sænsku hljómsveitinni Mando Diao. Í öðru sæti hafnaði Jóhanna Margrét Einarsdóttir og Anton Guðjónson varð þriðji. Söngkeppnin er einn af hápunktum félagslífsins í FSu og var þetta í 20. sinn sem hún er haldin. Meðal þeirra sem komu fram var Lárus Ingi Magnússon sem sigraði í fyrstu keppninni og einnig í Söngkeppni framhaldsskólanna 1990, þar sem Móeiður Júníusdóttir varð í öðru sæti og Páll Óskar Hjálmtýsson í þriðja. Að þessu sinni var þemað „timaflakk" og þótti keppnin og umgjörð hennar glæsileg á allan hátt. Á sjötta hundrað gesta sótti söngkeppnina.