GUÐNÝ ÓSK MEÐ FRAMÚRSKARANDI NÁMSÁRANGUR

Brautskráning í FSu markar alltaf tímamót og gleði og að þessu fór hún fram föstudaginn 19. desember. Í upphafi athafnar söng kór skólans undir píanóleik og stjórn Stefáns Þorleifssonar jólalögin Ljós á kertum loga sem er titillag jólamyndarinnar Aleinn heima og Nú minnir svo margt á jólin sem er lag við ljóð eftir Jónas Friðrik Guðnason.

Athöfninni var stýrt af skólameistara Soffíu Sveinsdóttur sem að loknum kórsöng bauð Sigursveini Sigurðssyni aðstoðarskólameistara að flytja annál annarinnar en það er rík hefð við athöfnina að tíunda það sem gert er utan hefðbundins skólastarfs. Farið var í fjölmargar vettvangsferðir, innlendir sem erlendir gestir sóttu skólann heim og nemendur fóru utan í Nordplus samstarf. Sögulegt vísnakvöld var endurvakið, glæsileg söngkeppni haldin, þrískólafundur, nýr áfangi í dómgæslu kenndur í samstarfi við KSÍ, myndlistarsýningar innan sem utan skólans, vampíru leiksýning nemenda í húsnæði Leikfélags Selfoss, góðgerðavika til stuðnings SÁÁ, útivist og fjallgöngur í íþróttaáföngum, kærleikshringur myndaður utan um skólann og heiðursverðlaun Félags sérkennara veitt viðtaka af tveimur kennurum skólans.

Fjöldi brautskráðra voru 60 nemendur af tíu námsbrautum skólans. 36 stúdentar, tuttugu af öðrum brautum og fjögur útskrifast úr starfsnámi með stúdentspróf að auki. Einn lýkur stúdentsprófi af tveimur brautum. Flestir stúdentar útskrifast af opinni línu eða sautján talsins. Níu útskrifast af náttúrufræðilínu, þrír af íþrótta- og heilsulínu, þrír af listalínu, tveir af viðskipta- og hagfræðilínu og þrír bæta við sig stúdentsprófi að loknu verknámi. Tólf útskrifast af pípulagnabraut, níu af sjúkraliðabraut, þar af fjórir með stúdentspróf að auki. Tveir útskrifast af húsasmíðabraut og einn af grunnmenntabrú.

Guðný Ósk Atladóttir hlaut hæstu meðaleinkunn að þessu sinni og lauk námi sínu með framúrskarandi árangri í flestum greinum. Auk þess að hljóta styrk frá Hollvarðasamtökum skólans fékk hún sérstakar viðurkenningar í þýsku, íslensku, viðskipta- og hagfræðigreinum, ensku, félagsgreinum og stærðfræði.

Í ræðu sinni lagði skólameistari Soffía Sveinsdóttir út af ýmsum þjóðþrifamálum og meðal annars varðveislu íslenskrar tungu. Hún hvatti nemendur til að huga að kunnáttu sinni í móðurmálinu og lesa meira á íslensku. Í beinu framhaldi sagði hún áheyrendum sínum áhugaverða sögu úr skólalífinu: „Á fundi fyrr í vikunni flutti nemandi skólans erindi um varðveislu íslenskunnar fyrir starfsfólk. Hún hélt þrumuræðu þar sem hún brýndi fyrir okkur mikilvægi lesturs og hvað við gætum gert til að viðhalda tungumálinu. Það gladdi mig að heyra fulltrúa framtíðarinnar flytja þennan boðskap því íslenskan á mjög undir högg að sækja um þessar mundir. En tungumál eru lifandi og eðlilegt að þau þróist.” Svo sannarlega orð í tíma töluð.

Ræða nýstúdents var í höndum Önnu Nesterenco sem kom til Íslands frá Úkraínu eftir að innrásarstríðið skall á. Áhugaverð ræða sem innihélt í senn hugrekki hennar og dugnað að takast á við nýjar og framandi aðstæður og æðruleysi og þakklæti til hins nýja samfélags sem fóstrar hana. FSu væri skóli þar sem gagnkvæm virðing og friður ríkir milli nemenda og starfsfólks skólans.

Á útskriftardegi fléttast saman menntun og menning, tilhlökkun og tregi, stolt yfir stöðnum einingum og árangri í námi, hugleiðing um horfin veg og hvað sé handan hæðarinnar en umfram allt ósk okkar allra um bjarta framtíð. Hefð er fyrir því að vitna til hins nafnlausa skólaskálds sem bregður fyrir sig hringhendu að þess sinni:

Vorum aga hlýða hlaut.

Híma‘ í Braga‘ og leysa þraut.

Enginn saga‘ er til um taut.

Tíma‘ og daga sérhver naut.

 

Hátt má draga höfuðskraut,

húfu laga‘ og svífa‘ á braut.

 

Starfsfólk Fjölbrautaskóla Suðurlands óskar öllum sem þetta lesa gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.