Gott Box!

Lið FSu tók um helgina þátt í úrslitum í Boxinu, framkvæmdakeppni framhaldsskólanna. Keppnin fór fram í húsakynnum Háskólans í Reykjavík. Lið FSu stóð sig vel og hlaut m.a. tvenn verðlaun, annars vegar fyrir góða hönnun à pappabát í þraut á vegum prentsmiðjunnar Odda og hins vegar verðlaun frá Kjarnafæði fyrir frábæra liðsheild, samvinnu og jákvæðni. Í fyrsta sæti Boxins varð Menntaskólinn í Reykjavík, Framhaldsskóli Vestmannaeyja vermdi annað sæti og hið þriðja féll í skaut Menntaskólans við Sund. Aðrir skólar sem áttu sæti í úrslitum auk þessara þriggja og FSu voru Flensborg, Kvennó, Menntaskólinn á Akureyri og Verkmenntaskólinn á Akureyri. Lið FSu skipuðu þau Aðalbjörg Ýr Sigurbergsdóttir, Erlendur Ágúst Stefánsson, Halldóra Íris Magnúsdóttir, Magnús Ágúst Magnússon og Sverrir Heiðar Davíðsson.

Þetta er í fjórða sinn sem keppnin er haldin  og er markmiðið er að kynna og vekja áhuga á tækni, tækninámi og störfum í iðnaði og má segja að verið sé að etja kappi í hugvitssemi og verkviti. Stelp­um hef­ur farið fjölg­andi ár frá ári í keppn­inni. Fjöldi þeirra marg­fald­aðist í ár þar sem 16 stelp­ur tóku þátt í úr­slita­keppn­inni (37,4% þátt­tak­enda) en voru 6 í fyrra (17%). Í úrslitakeppninni fóru liðin í gegnum þrautabraut með átta stöðvum og fengu hálftíma til að leysa hverja þraut.  Hvert lið var skipað fimm einstaklingum og þrautirnar settar saman af fyrirtækjum úr ólíkum greinum iðnaðarins með aðstoð fræðimanna Háskólans í Reykjavík. Við mat á lausnum réð meðal annars tími, gæði lausnar og frumleiki.  Þrautirnar voru afar fjölbreyttar og reyndu á ólíka þætti. Mikil leynd hvíldi yfir því hverjar þrautirnar væru og sérstakir siðgæðisverðir fylgdu liðunum eftir á keppnisdaginn svo að enginn fengi upplýsingar um þær þrautir sem átti eftir að leysa. RUV tók upp keppnina og viðtöl við keppendur og verður þátturinn sýndir í byrjun næsta árs.

Að keppninni standa Samtök iðnaðarins, Háskólinn í Reykjavík og Samband íslenskra framhaldsskólanema, en fyrirtækin sem komu að gerð þrautanna í ár eru Advania, Héðinn, ÍAV, Ístex, Kjarna­fæði, Oddi, Stiki og Össur.

Umsjón með hóp FSu hafði Ágústa Ragnarsdóttir myndlistakennari.

Á myndunum má sjá liðið allt saman aftari röð frá vinstri: Sverrir Heiðar Davíðsson, Magnús Ágúst Magnússon og Erlendur Ágúst Stefánsson. Fremri röð frá vinstri: Halldóra Íris Magnúsdóttir og Aðalbjörg Ýr Sigurbergsdóttir og mynd af liðinu í ham að leysa þraut ÍAV. 

Fleiri myndir úr keppninni má sjá á fésbókarsíðu skólans.