Góður árangur og gleði á Leiktu betur

Spunalið FSu Pastabois.
Spunalið FSu Pastabois.

Nýverið tók lið FSu þátt í spunakeppninni Leiktu betur í Borgarleikhúsinu þar sem mikil gleði og hæfileikar komu saman. En við ættum kannski að byrja á því að segja smá frá keppninni sjálfri. Leiktu betur er spunakeppni framhaldsskólanna en keppnin gengur út á það að 4-manna lið frá hverjum skóla skiptast á að flytja stutt spunaleikrit á staðnum. Það gjarnan er spunnið með ákveðnum stíl og/eða orði frá áhorfendum. Dæmi um þetta væri: Elliheimilaspuni með söngleikjastíl.

Teymið okkar myndaðist fljótlega eftir að leiklistarkennarinn okkar Guðfinna lét okkur prófa nokkrar spunaæfingar í tímum þar sem hópurinn gat vegið og metið styrkleika hvers og eins. Artúr, Alexander Óli, Sigríður og Sölvi auk varamannanna okkar Ingberg Örn og Thelma Dís urðu fyrir valinu og þannig myndaðist ofurliðið Pastabois. Þrátt fyrir allskonar hindranir náðum við að hittast utan skóla og fínpússa okkur sem leiklistarlið. Það sýndu allir mikla ástríðu við undirbúninginn og við gengum svo langt að panta okkur liðspeysur fyrir keppnina.

Á keppnisdegi hittumst við öll í Borgarleikhúsinu um fimmleytið þar sem var farið var yfir reglur og fyrirkomulag keppninnar, eftir það fórum við í upphitunarleiki og kynntumst hinum nemendunum betur. Það kom okkur hreinlega á óvart hversu vel allir náðu saman og hversu skemmtilegur blær lá í loftinu, í öðrum orðum var þetta ógeðslega gaman. Eftir að keppnin hófst þá gekk þetta hratt fyrir sig og áður en við vissum af því var komið að okkur að spinna. Við negldum okkur á sviðið og kynntum okkur með látum. „Við erum Pastabois!“ Eftir mikinn undirbúning vorum við loks búin að spinna en við fengum mikinn hlátur og við skemmtum okkur konunglega fyrir framan áhorfendurna.

Tvö stigahæstu liðin mættust í spuna einvígi en Menntaskólinn við Hamrahlíð sigraði keppnina enda stóðu þau sig ótrúlega vel. FSu lenti í 5. Sæti af 8 skólum og það er bara frábær frammistaða. Við erum ótrúlega ánægð með það að hafa tekið þátt og fengið að skemmta okkur með öðrum skólum. Við viljum þakka öllum þeim sem komu  að horfa á okkur og við þökkum öllum þeim sem komu að keppninni. Við mælum eindregið með leiklist og Leiktu betur.

Ást og friður, Pastabois

Alexander Óli Nóason, Artúr Guðnason, Sigríður K. Halldórssdóttir og Sölvi Scheving Pálsson.

 Fleiri myndir frá keppninni má finna á Fésbókarsíðu skólans.