Góður árangur á góðgerðardögum

Nemendafélag FSu stóð fyrir glæsilegum góðgerðardögum í byrjun október. Félagið var með dagskrá í þrjá daga, stóð fyrir áheitum og skólinn var skreyttur hátt og lágt. Nemendur og kennarar stóðu sig vel og hétu á hvert annað eins og enginn væri morgundagurinn, en alls söfnuðust 299.286 krónur sem runnu til Rauða krossins og átaksins Göngum til góðs þar sem áherslan var á börn í neyð um allan heim. Áheitin voru margvísleg, nemendur lituðu og klipptu á sér hárið, rökuðu af sér augabrúnir og margt fleira. Einnig gaf ritráð NFSu út glæsilegt blað góðgerðadaga. Að auki stóð félagið fyrir kvöldvöku með bingó og uppistandi. Dagarnir enduðu svo á knattspyrnuleik milli nemenda og kennara, sem endaði með naumlegum sigri nemenda þar sem úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni.

Á sama tíma söfnuðu nemendur í félagsfræði þróunarlanda 115.000 krónum til þróunaraðstoðar í Malaví.

Á myndinni að ofan má sjá fulltrúa nemendaráðs afhenda forsvarsmönnum Rauða krossins afrakstur söfnunarinnar. Myndina tók Magnús Hlynur Hreiðarsson.