Glæsileg sirkussöngkeppni

Margrét Rún Símonardóttir, Bergþóra Rúnarsdóttir og Iðunn Rúnarsdóttir eru sigurvegarar söngkeppni FSu 2013, en keppnin fór fram í gærkvöld. Þríeykið söng sína eigin útsetningu á laginu Tonight með Enrique Iglesias við mikinn fögnuð áhorfenda. Í öðru sæti var Fríða Hansen með lagið You give love a bad name og í þriðja sæti varð Elísa Dagmar Björgvinsdóttir með lagið Wherever you will go.  Sérstök verðlaun voru veitt fyrir sviðsframkomu, en það var Heiðrún Huld Jónsdóttir sem hreppti þau með laginu Warwick Avenue. Alls tóku ellefu atriði þátt í keppninni og alltaf jafn gaman að sjá hversu miklir hæfileikar finnast meðal nemenda á tónlistarsviðinu. Hljómsveit kvöldsins var einnig skipuð nemendum skólans og stóð sig frábærlega.

songkeppni5Keppnin var stórglæsileg að venju, en þetta er langstærsti viðburður á vegum nemendafélagsins á hverri haustönn. Þema kvöldsins var sirkus og var íþróttahúsið skreytt hátt og lágt í samræmi við það og sirkusfólk sýndi listir sínar.

Margrét Rún, Bergþóra og Iðunn verða fulltrúar skólans á Söngkeppni framhaldsskólanna sem haldin verður á vorönn.

Myndirnar tók Hermann Snorri.