Gildi FSu: Fjölbreytni - sköpun - upplýsing

Gildi eru jafnan talin grundvöllur skólastarfs, þau endurspegla sameiginlegan skilning starfsfólks og áherslur hvers skóla fyrir sig, út frá lögum og aðalnámskrá. Gildin geta, ef vel er á málum haldið, örvað faglega umræðu og eflt skólann sem heildstætt lærdómssamfélag þar sem sjónum starfsfólks og störfum þess er beint að framtíðarsýn og stefnu skólans. Gildin móta þess vegna skólabrag. Það er mikilvægt að starfsfólk spyrji sig: Er ríkjandi gildismat og framtíðarsýn skólans öllum kunn? Er starfsfólk sammála um gildin og stefnu skólans? Er samhljómur milli gilda, sýnar og stefnu? Einn fjögurra þátta Skólans í okkar höndum er skólabragur. Með ör-samræðum hefur starfsfólk nú rifjað upp gildi FSu, rökrætt hvort sameiginlegur skilningur er á hugtökunum og spáð í hvernig gildin birtast í þeirra störfum. Umsjónarkennarar hafa einnig hvatt umsjónarnemendur sína til umhugsunar um það hvernig þeir nýta fjölbreytni, sköpun og upplýsingu í námi sínu.