GETTU BETUR BYRJAR AFTUR

Þegar við sleppum hendinni af jólahátíðinni og fæðingu frelsarans - kveðjum Grýlu, Leppalúða og jólasveinana þrettán - hringir GETTU BETUR þátttaka FSu inn. Það er alltaf fagnaðarefni og ákveðinn vorboði. Frammistaða nemenda í fyrra er mjög eftirminnileg því þá endaði skólinn í 2. sæti eftir jafna keppni við MR í úrslitum 34 - 24. Þá skipuðu skólaliðið Ásrún Aldís Hreinsdóttir, Elín Karlsdóttir og Heimir Árni Erlendsson. Nú hefur Ásrún útskrifast og kvatt skólann í bili og Valgeir Gestur Eysteinsson er kominn í hennar stað. Þjálfari liðsins er íslenskukennarinn Stefán Hannesson.

Framundan er áhugaverð keppni við nemendur Borgarholtsskóla mánudagskvöldið 8. janúar sem er send út í netstreymi RÚV klukkan 18.40 og af því að fréttastjóra gekk sérlega illa að finna upplýsingar um keppnina - sendir hann slóð á fjasbókarsíðu RÚV https://www.facebook.com/gettubetur því hann GETUR EKKI BETUR í leit sinni að upplýsingum um þennan viðburð.

jöz.