Garðyrkjunámskeið fyrir almenning vor 2024

Við Garðyrkjuskólann hefur löngum starfað öflug endurmenntunardeild sem boðið hefur upp á námskeið bæði fyrir fagfólk í garðyrkju og allan almenning.

Þetta starf heldur áfram með sama hætti þó yfirstjórn skólans hafi flutt yfir til Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Garðyrkjuskólinn hefur um árabil verið í samstarfi við IÐUNA fræðslusetur um námskeiðahald. Þeir sem eru í stéttarfélagi sem á aðild að Iðunni geta því skráð sig á námskeið og fengið niðurgreiðslu á námskeiðsgjaldi. Einnig styrkja flest önnur stéttarfélög fólk til þátttöku á námskeiðum.

Námskeiðin á þessari önn eru kynnt á síðu Endurmenntunar Græna geirans. Þar má finna nánari lýsingu á því sem verður í boði.

Margir eru búnir að koma sér upp gróðurhúsi í garðinum sínum eða stefna á að koma sér upp slíku og langar til að vita meira um hvaða möguleika slíkt hús býður uppá. Námskeið um fyrstu sporin í gróðurhúsinu hafa notið fádæma vinsælda, því verður boðið upp á tvær dagsetningar á þessu vori.

Einnig koma saman tveir helstu fræðingar landsins í ræktun og meðferð pottaplantna og verða með námskeið. Það eru þau Hafsteinn Hafliðason og Guðríður Helgadóttir ætla að sjá um að uppfræða nemendur og kenna þeim handtökin við að taka græðlinga, skipta og umpotta plöntum.

Fleiri námskeið verða í boði ef eftirspurn býður upp á.

Nánari upplýsingar hér:

https://www.fsu.is/is/namid/gardyrkjuskolinn-reykjum/gardyrkjuskolinn-namskeid