Ganga yfir Fimmvörðuháls

Nemendur í útivistaráfanga Fsu gengu yfir Fimmvörðuháls þriðjudaginn 6. september sl. Um nokkuð stóran hóp var að ræða eða 38 nemendur og þrjá kennara. Þessi leið er um 25 km og nokkuð krefjandi en nemendur stóðu sig frábærlega vel. Hægt að er að segja að hópurinn hafi verið einstaklega heppinn því blíðskaparveður var allan tímann með skyggni í allar áttir. Þegar komið var niður í Bása eftir u.þ.b. 10 klst göngu, voru það þreyttir en ánægðir göngugarpar sem tóku til við að grilla úrbeinuð lambalæri sem matvælabraut skólans hafði séð um að útbúa. Allir voru greinilega orðnir svangir því vel var borðað, enda bragðaðist maturinn líka einkar vel. Gisti hópurinn í skála Útivistar. Á heimleiðinni var tekið stutt stopp til að ganga inn í og skoða Nauthúsagil. Ferðin gekk vel með fjörugum hópi nemenda sem höfðu gleðina að leiðarljósi. Fleiri myndir út ferðinni má sjá á fésbókarsíðu skólans.