Fyrirkomulag kennslu til 19. október


 Nú liggur fyrir með hvaða hætti kennslan verður næstu vikur eða fram til 19. október.

 1. Allt bóknám verður rafrænt - nemendur mæta ekki í skólann. Bóklegu tímarnir eru kenndir skv. stundaskrám í Innu. Kennarar verða til taks fyrir nemendur á þeim tímum.

2. Það eru einhverjar undantekningar á því og þá gilda skilaboð sem kennarar senda til nemenda beint úr Innu.

 3. Verknámið í Hamri verður með svipuðum hætti og það var í haust í upphafi annar. Kennarar hverrar námsgreinar (raf., málm., tré., hár) senda nemendum póst um skipulagið. Mikilvægt er að mæta í alla tíma og samkvæmt fyrirmælum kennara og samkvæmt nýrri tímatöflu sem er ekki sú sama og er í Innu í verknáminu. Nemendur í verknámi verða að sinna almennum bóklegu tímum sjálfir ef þeir eru í verknámi þegar tímar í bóklegum áföngum eru í gangi á netinu. Allir þurfa að fylgja fyrirmælum frá kennurum.

4. Starfsbraut mætir samkvæmt stundaskrá sem kennslustjóri skipuleggur og sendir á heimilin.

5. Nemendur á hestabraut fá fyrirmæli um skipulag frá kennslustjóra. Akstur í Votmúla fyrir yngri nemendurna verður frá FSu.


 6. Myndlistarnemendur mæta samkvæmt fyrirmælum kennara myndlistar.

7. Grunnbraut ferða- og matvælagreina mætir í nýja eldhúsið samkvæmt fyrirmælum frá kennara.

Allar mætingar í skólann byggjast á:
 a. Að ganga inn í skólann um réttan inngang, þann sama og gilti í haust í Hamar og hefur gilt í Odda og Iðu og nemendur fari beint í stofuna/verkstæðið.

b. Að nemendur dvelji ekki á öðrum stöðum í skólanum en þar sem kennslan fer fram.

c. Allir þurfa að mæta með eða fá grímu við innganginn og bera hana allan tímann í skólanum. Huga vel að handþvotti og nýta spritt og hanska þegar það á við.

 Í framhaldsskólum mega allt að 30 manns koma saman í sama rými en með allar sóttvarnir á hreinu. Inngangar og gangar innan skólans eru ferðasvæði og þar má ekki hanga.


 Við erum saman í þessu og hjálpumst að. Ef eitthvað er óljóst er best að nemendur setji sig beint í samband við þann kennara. Kennarar eru boðnir og búnir til að hjálpa.

 Við minnum á námsráðgjafana sem verða með rafræna ráðgjöf, en þeir sem eiga tíma hjá sálfræðingum mæta í Hamar eins og áður þegar tíminn hefst.

 Gangi ykkur sem allra best í náminu.