FSu í úrslitum Boxins fimmta árið í röð

Meðfylgjandi mynd er frá undankeppninni í sl. viku þar sem tvær þrautir voru leystar samhlið: Byggin…
Meðfylgjandi mynd er frá undankeppninni í sl. viku þar sem tvær þrautir voru leystar samhlið: Bygging brúar úr 15 A4 blöðum og 25 tannstönglum með burðarþol fyrir 250 ml Tetrapak fernu og svo var tölvuþraut sem sett var saman út frá forritunarpælingum.

Í síðustu viku fór fram undankeppni Boxins þar sem 26 lið úr 14 framhaldsskólum tóku þátt en aðeins 8 lið úr jafnmörgum skólum eiga þess kost að komast í aðalkeppnina. Lið FSu tryggði sig áfram 5. árið í röð. Liðið mun etja kappi við Menntaskólann í Reykjavík, Kvennaskólann, Menntaskólann í Hamrahlíð, Fjölbrautaskólann í Breiðholti, Menntaskólann á Laugarvatni, Tækniskólann og Menntaskólann í Kópavogi.

Lið FSu skipa þau Álfheiður Österby, Leó Snær Róbertsson, Harpa Svansdóttir, Karólína Ívarsdóttir og Dagur Snær Elísson.

Umsjónarmaður hópsins er Ágústa Ragnarsdóttir, myndlistakennari.

Hvað er Boxið?

Boxið er samvinnuverkefni HR, Samtaka iðnaðarins og  Sambands íslenskra framhaldsskólanema. Allir framhaldsskólar landsins geta sent lið í keppnina og er hvert lið skipað fimm einstaklingum úr viðkomandi skóla.

Í lokakeppninni er um þrautabraut að ræða með átta stöðvum og fara liðin á milli og leysa eina þraut á hverjum stað. Þrautirnar reyna á hugvit og verklag. Fyrirtæki úr ólíkum greinum iðnaðarins sjá um og útvega efni í þrautir sem lagðar verða fyrir liðin. Fræðimenn frá HR aðstoða fyrirtækin við að koma saman heppilegum þrautum.

Aðalkeppnin mun fara fram laugardaginn 11. nóvember í Háskólanum í Reykjavík og geta allir komið og fylgst með.