FSu Í ÁTTA LIÐA ÚRSLIT Í GETTU BETUR

Tveimur umferðum er nú lokið í GETTU BETUR keppni framhaldsskólanna og sigraði lið FSu í þeim báðum. Í fyrri umferðinni var lið Flensborgarskólans lagt að velli og í þeirri síðari lið Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Sannarlega glæsilegur árangur þriggja frábærra nemenda en liðið er skipað Ásrúnu Aldísi Hreinsdóttur (á 2. ári) - Bjarna Má Stefánssyni og Júlíu Lis Svansdóttur (á 3. ári). Teymið hefur æft á fullu síðan í nóvember og hafa liðsmenn lagt mikla vinnu og visku í þann undirbúning. Og nú eru þau komin í átta liða úrslit og í sjálfa sjónvarpskeppnina. Undirbúningurinn felst fyrst og fremst í því að sanka að sér öllum mögulegum fróðleik, greina áherslur og áhuga spurningahöfunda, þjálfa flæði í hraðaspurningum og síðast en ekki síst að æfa tæknina í bjölluspurningunum þar sem ákvarðanatakan er mikilvægust - hvenær á að ýta á bjölluna og hvenær má bíða.

Liðið stefnir langt eins og íslenska karlalandsliðið í handbolta á EM enda ekki komist í sjónvarpið undanfarin þrjú ár. Móttó liðsins er CE LA VIE sem vísar í að dvelja í núinu þar sem leikgleðin er í fyrirrúmi. Þetta er í tólfta sinn sem FSu kemst í sjálfa sjónvarpskeppnina sem er eins og milliriðill handboltakeppninnar. Nú er að komast í undanúrslitin. En mörgum er það minnisstætt að FSu er fyrsti sigurvegarinn í sögu Gettu betur þegar þeir lögðu Flensborgarskólann að velli árið 1986. Fyrsti andstæðingur FSu í sjónvarpinu er Verslunarskóli Íslands og fer keppnin fram föstudagskvöldið 4. febrúar næstkomandi. Nú er mikilvægt að styðja liðið og senda þeim hugrænar baráttukveðjur. ÁFRAM FSu : - )

jöz.