FSu áfram í Boxinu

Í gær, þriðjudaginn 20. okt., fór fram undankeppni Boxins þar sem 29 lið úr 17 skólum tóku þátt en aðeins 8 lið úr jafnmörgum skólum eiga þess kost að komast í aðalkeppnina. Það er skemmst frá því að segja að lið FSu fyllir fríðan flokk þessara 8 skóla sem eru auk FSu: 

Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Flensborgarskólinn, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn í Kópavogi, Menntaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn við Hamrahlíð og Menntaskólinn við Sund.

Lið FSu skipa þau Anna Guðrún Þórðardóttir, Sverrir Heiðar Davíðsson, Guðmundur Bjarnason, Halldóra Íris Magnúsdóttir, og Þórir Gauti Pálsson.

Umsjónarmaður hópsins er Ágústa Ragnarsdóttir, myndlistakennari.

Boxið er samvinnuverkefni HR, Samtaka iðnaðarins, mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra framhaldsskólanema. Allir framhaldsskólar landsins geta sent lið í keppnina og er hvert lið skipað fimm einstaklingum úr viðkomandi skóla.

Í lokakeppninni er um þrautabraut að ræða með nokkrar stöðvum og fara liðin á milli og leysa eina þraut á hverjum stað. Þrautirnar reyna á hugvit og verklag. Fyrirtæki úr ólíkum greinum iðnaðarins sjá um og útvega efni í þrautir sem lagðar verða fyrir liðin. Fræðimenn frá HR aðstoða fyrirtækin við að koma saman heppilegum þrautum. Einnig eru kennarar á staðnum meðan á keppninni stendur.

BOXIDMarkmiðið með keppninni er að kynna og vekja áhuga á tækni, tækninámi og störfum í iðnaði. Aðalkeppnin mun fara fram laugardaginn 31. október í Háskólanum í Reykjavík og geta allir komið og fylgst með.

Meðfylgjandi mynd er frá undankeppni gærdagsins þar sem m.a. þurfti að reisa "skólaborð" úr 500 A4 blöðum og hlaða svo bókum þar ofan á. Þar reyndi á útsjónarsemi vegna hæðar borðsins og burðarþols.