FRÓÐLEGUR FUNDUR KENNARASAMBANDSINS

Fróðlegur og vel skipulagður fundur fulltrúa KÍ var haldinn á sal FSu (Gaulverjabæ) þriðjudaginn 5. september. Hófst hann klukkan 16.30 og lauk á slaginu 18.00. Hugmyndin með fundinum er að kynna skólastefnu Kennarasambandsins, starfsemi þess og orlofs- og endurmenntunarsjóði. Er fundurinn haldinn í hringferð sambandsins um landið til að upplýsa félagsmenn og efla með þeim stéttarvitund og fagmennsku í starfi.

Stjórn kennarafélags FSu hafði veg og vanda af undirbúningi innanhúss með Guðmund Björgvin Gylfason í forsæti ásamt Svani Ingvarssyni, Kristjönu Hrund Bárðardóttur, Jóhanni Snorra Bjarnasyni og Ólafi Einarssyni. Fulltrúar KÍ voru Jónína Hauksdóttir varaformaður, Arndís Þorgeirsdóttir og Katrín Ásmundsdóttir frá upplýsinga- og kynningarsviði og Freydís Þrastardóttir þjónustufulltrúi sem fjallaði um orlofs- og endurmenntunarsjóði.

Góðmennt var á fundinum og mættu fulltrúar flestra aðildarfélaga KÍ á Suðurlandi en þau eru sjö talsins. Fínar umræður sköpuðust í lokin og boðið var upp á svartbaunaseyði, kleinur, snúða og grænt hollmeti.

Á myndinni má sjá frá vinstri Guðmund Björgvin Gylfason formann KFSu, Svan Ingvarsson meðstjórnanda, Jónínu Hauksdóttur varaformann KÍ, Freydísi Þrastardóttur þjónustufulltrúa KÍ og Jón Snæbjörnsson formann Kennarafélags Menntaskólans að Laugarvatni.

jöz.