Fréttir af kór FSu

Mynd frá ferðalagi kórsins til Ítalíu.
Mynd frá ferðalagi kórsins til Ítalíu.

Létt stemming ríkir í röðum kórfélaga Fsu að vanda. Kórinn hóf haustönnina að þessu sinni með ferð til Reykjavíkur þar  sem keppt var í keilu og pítsuáti. Í september tók kórinn nokkur lög við afmælishátið skólans. Í október hóf kórinn upp raust sína að nýju og söng  við áfangamessu Fjölbrautaskólans.  Einnig hélt kórinn  í æfingabúðir á Akranes þar sem Fjölbrautaskóli Vesturlands var svo rausnarlegur að ljá okkur húsakynni sín. Æft var nokkuð stíft báða dagana, en einnig héldu kórmeðlimir velheppnaða kvöldvöku og léku í maraþonleikriti er stóð í eina 3 tíma.

Nú í upphafi nóvember söng kórinn á kvennakvöldi hjá Lionsklúbbnum Emblu  Selfossi og voru þær svo elskulegar að færa kórnum styrktarfé til utanlandsferðar.

26. nóvember hefur kórinn verið pantaður  til að syngja á skemmtikvöldi Karlakórs Hveragerðis sem haldið verður í Skyrgerðinni Hveragerði.  Þar munu 3 kórar koma fram.

4. desember syngur kórinn á aðventuhátíð í Selfosskirkju auk fjölda annara kóra.

Að venju syngur kórinn við brautskráningu í skólanum í desember.

Mörg spennandi verkefni eru framundan á vorönn og  má þar nefna vísnakvöld í febrúar, þar sem kórinn fær  til sín góða gesti  og listamenn afar kósý og notaleg kvöldstund. Stefnt er  að  því  að halda vortónleika í lok mars og þann 17. apríl heldur kórinn utan í söngferðalag til Dublinar  á Írlandi.

Þar verða haldnir tvennir tónleikar með írskum framhaldsskólakór auk þess sungið hér og þar og allstaðar, á torgum og í skemmtigörðum.  Í Dublin taka á móti okkur Elli og Jóna en þau sáu einnig um að skipuleggja með okkur eftirminnilega  og frábæra  Ítalíuferð fyrir rúmum tveimur árum.

Rétt er að geta að alltaf er pláss fyrir fleiri söngglaða og hressa kórfélaga og tekur kórinn ávallt fagnandi nýjum félögum.

Kórstjóri er Örlygur Atli Guðmundsson og umsjónakennarar eru Gunnþórunn Klara Sveinsdóttir og Kristjana Hrund Bárðardóttir

Kveðja

Stjórnin