FRÆÐANDI OG SKEMMTILEG FERÐ TIL STRASBOURGAR
Um miðjan júní síðastliðinn héldu nemendur í umhverfisnefnd FSu ásamt nokkrum kennurum skólans til Strasbourgar í Frakklandi. Var förinni heitið á Evrópuþing ungmenna eða European Youth Event sem er viðburður sem Evrópuþingið heldur á tveggja ára fresti í Strassborg og dregur að sér þúsundir ungs fólks víða úr Evrópu. Markmiðið er að skapa fjölþjóðlegan vettvang þar sem ungmenni geta hist, deilt hugmyndum og rætt framtíð Evrópu með þingmönnum, sérfræðingum og jafnöldrum sínum.
Á dagskránni voru fjölbreyttar vinnustofur, málstofur og skapandi viðburðir sem miðuðu að því að efla lýðræðislega þátttöku ungs fólks og hvetja þau til að taka virkan þátt í samfélaginu. Hugmyndir og tillögur sem komu fram voru síðan teknar saman og kynntar fyrir Evrópuþinginu sem auðveldar ungu fólki að hafa áhrif á stefnumótun innan Evrópusambandsins
Ferðin var mjög fræðandi og skemmtileg en það er mjög þroskandi fyrir nemendur að fá tækifæri til að taka þátt í starfi sem þessu. Nemendur FSu stóðu sig að vanda mjög vel og voru skólanum til mikils sóma.
hþs / jöz