SÖNGKEPPNI MEÐ MIKLUM UNDIRBÚNINGI

Emilía Hugrún Lárusdóttir vann söngkeppni NFSU sem haldin var í vikunni. Emilía Hugrún söng lagið I´d rather go blind með Ettu James. Keppnin var að venju stórglæsileg og umgjörðin öll til fyrirmyndar en að þessu sinni var yfirskrift keppninnar MAMMA MIA.

Tólf keppendur tóku þátt að þessu sinni en þeir voru valdir í forvali fyrr á skólaárinu og var kynnir kvöldsins Vilhelm Anton Jónsson eða Villi naglbítur og var hann „gjörsamlega frábær” að mati nemenda. Og gilti það sama um hljómsveitirnar og skipulag tæknigúrúsins og fyrrum nemanda FSu, Sigurgeirs Skafta Flosasonar. Söngatriðin voru öll mjög góð og átti dómnefnd úr vöndu að ráða. Sigurvegari kvöldsins verður fulltrúi skólans í aðalkeppninni, söngkeppni framhaldsskólanna. 

Í öðru sæti varð Elísabet Björgvinsdóttir, en hún söng lagið Jealous með Labrinth Smith og í þriðja sæti varð Klara Ósk Sigurðardóttir en hún söng lagið New York State of Mind með Billy Joel.  Verðlaun fyrir skemmtilegasta atriðið fékk Aron Birkir Guðmundsson sem flutti lagið Don´t stop me now með Queen. Hljómsveitin No Sleep sá um undirleik og rúmlega fimm hundruð manns sátu í salnum og nutu góðgerðanna.

Að sögn Sirrýjar Fjóla Þórarinsdóttir sem er einn af burðarásunum í undirbúningi þessarar keppni í hópi nemenda hefur verið ótrúlega mikið og gott skipulag á þessari keppni. „Að skipuleggja svona viðburð er ótrúlega stressandi og krefjandi en á sama tíma mjög skemmtilegt.” Hún hrósar Guðmundi Bjarna Brynjólfssonar varaformanni NFSu sérstaklega fyrir að skipuleggja keppnina svona vel og öllum þeim hinum sem komu að undirbúningnum. Guðmundur Bjarni vill svo bæta því við í lokin að „þetta sé mjög krefjandi hlutverk (að halda utan um svona keppni) og þurfti ég að eyða miklum tíma í þetta.” En fullyrðir um leið að það hafi alls ekki verið leiðinlegur tími. „Því um leið og söngkeppnin varð að veruleika varð ég ótrúlega stoltur. „Ég vona að næsta keppni verði eins góð eða jafnvel betri en þessi” sagði Guðmundur brosandi og hæstánægður að lokum.

Ljósmyndirnar eru fengnar að láni hjá sunnlenska.is / Guðmundi Karli Sigurdórssyni og þakkar skólin kærlega fyrir þær : - )

jöz / guð / sfþ / gbb