Frábær góðgerðarvika

Vikuna 6.-10. október fór fram góðgerðarvika NFSu í þríðja sinn. Í þessari viku gafst nemendum tækifæri á að skora á hvorn annan eða jafnvel kennara að gera eitthvað sem kostaði það að fara aðeins út fyrir þægindaramman með því að leggja pening undir og aðrir nemendur gátu síðan sett pening undir sömu áskorun. Vikan byrjaði með því að nemendaráðið gaf vöfflur sem vakti mjög mikla lukku meðal nemenda. Á miðvikudeginum var Karnival þar sem öll ráð nemendaráðsins voru með bás. Þar gátu nemendur spreytt sig á léttum þrautum fyrir klink. Sérstaka lukku vakti rjómakast básinn þar sem nemendur fengu að kasta rjóma í andlitið á formanni nemendaráðs fyrir klink. Einnig voru í boði lukkuhjól, kossabás og íþróttaþraut þar sem hægt var að vinna ýmsa litla vinninga. Góðgerðardagarnir enduðu svo með lokahátíð í Iðu þar sem kennarar kepptu á móti nemendum í blindrafótbolta með froskalappir sem kitlaði hláturtaugar nærstaddra auk þess sem áskoranir sem framkvæmdar höfðu verið í vikunni voru sýndar og aðrar framkvæmdar á staðnum. Olga Lísa skólastjóri lét hella yfir sig ísköldu vatni, Sverrir Ómar hljóp frá Reykjavík til Selfoss, eitthverjir enduðu með gult hár eða með dömu uppá arminum eftir að hafa mannað sig í að bjóða þeim á stefumót. Góðgerðarvikan heppnaðist vonum framar og rúm hálf milljón safnaðist til styrktar barnaþorpi SOS sem FSu mun styrkja hér með ár hvert.

Nemendaráðið hefði ekki getað þetta án hjálpar frá hinni frábæru góðgerðardaganefnd sem var skipuð þeim Bergrúnu Lindu Björgvinsdóttur, Hrafnhildi Hauksdóttur og Aðalbjörgu Ýr Sigurbergsdóttur.

Kveðja frá NFSu