Forritunarkeppni framhaldsskólanna

Tvö lið frá FSu kepptu í Forritunarkeppni framhaldsskólanna sem haldin var í Háskólanum í Reykjavík nýlega. Alls kepptu 44 lið í 3 deildum og  var þetta fjölmennasta forritunarkeppnin frá upphafi. Algengast var að þrír keppendur væru í liði en eitthvað var um tveggja eða jafnvel eins manns lið.
Annað liðanna frá FSu komst á blað í Howard Wolowitz deildinni (deild þeirra sem hófu forritunarnám síðasta haust)  því liðið 3_3 skipað þeim Benedikt Arnari Oddssyni, Karel Fannari Sveinbjörnssyni og  Hubert Popiolek náði 5. sæti af 18 alls. Liðið Afdalamenn frá FSu sem keppti í Sheldon Cooper deildinni háði harða baráttu og hafnaði í 9. sæti af 19. Þess má geta að Sheldon Cooper deildin er önnur af tveim hærri deildum keppninnar og er fyrir lengra komna. Ef að lið nær 1. eða 2. sæti í Sheldon Cooper eða Leonard Hofstadter deildum eru meðal verðlauna niðurfelld skólagjöld hjá viðkomandi keppendum fyrstu önnina ef þeir innrita sig í HR.
Þess má geta að fyrrum nemandi FSu en núna Tækniskólans Gunnar Guðvarðarson var í liðinu Derps sem náði 2. sæti í Leonard Hofstadter deildinni (önnur þeirra þyngri). Annar fyrrum nemandi FSu og sigurvegari í keppninni Jónantan Nilsson var starfsmaður hennar. Frekari fróðleik um keppnina má finna á http://www.forritun.is/ .