Flóafár

Á föstudaginn var haldið hið eina sanna Flóafár. Fimm lið mættu til leiks, helguðu sér svæði í skólanum og undirbjuggu liðsmenn. Fyrir upphitun brugðu allir sér út í slydduna og sýndu hug sinn til skólans með því að faðma greyið, en hann hefur orðið fyrir nokkru einelti upp á síðkastið eins og kunnugt er. Síðan tók við upphitun sem Rakel Magnúsdóttir sá um eins og henni er einni lagið. 

Keppnin sjálf var með hefðbundnu sniði; þrautir sem kennarar skipulögðu og dæmdu, með mismikilli skírskotun til þeirra greina sem þær voru kenndar við. Kennararnir skörtuðu líka ýmsum furðubúningum sem margir voru enn undarlegri en hinn hversdagslegi búningur þeirra.

Eftir margvíslegar viðurkenningar stóð eitt lið uppi sem sigurvegari. Að þessu sinni var það Aladdín sem bar sigur úr býtum og fékk að launum 80 pizzur sem liðið hesthúsaði með bestu lyst.